GODO Greinar

Öllum er ljóst að afleiðingar af völdum Covid-19 á ferðaþjónustu um heim allan eru gríðarlegar. Það má fullyrða að ferðalög erlendra ferðamanna til landsins hafi að mestu lagst af og ferðaþjónustufyrirtæki sem áður stóðu vel berjast nú í bökkum. Viðspyrna heillar starfsgreinar er framundan og því mikilvægt að fyrirtæki séu undir hana búin.

Ýmsar herferðir sem hvöttu landsmenn til að ferðast um Ísland báru góðan árangur og aldrei hafa Íslendingar ferðast jafn mikið innanlands eins og sumarið 2020. Um sjö af hverjum tíu skráðum gistinóttum Hagstofunnar sumarið 2020 voru gistinætur Íslendinga og hafa þær aldrei mælst svo margar áður. Hins vegar voru í heildina skráðar gistinætur sumarið 2020 rúmlega 60% færri en sumarið 2019 og 88% færri í september síðastliðnum miðað við sama mánuð 2019.

Mynd 1: Samanburður á seldum gistinóttum á árunum 2016-2020. Mynd frá Hagstofu Íslands.

Eins og sést á myndinni hér að ofan er samdráttur í sölu gistinátta á tímum Covid-19 helst hægt að líkja við hamfarir.

Þegar litið er yfir árið 2020 er ljóst að ferðaþjónusta hefur dregist verulega saman, nánast þurrkast út. Ferðalög innanlands veittu skammvinnan bata í sumar og ríkisstjórnin hefur gripið til umfangsmikla aðgerða til að vernda störf og fyrirtæki. Dýrmæt þekking og reynsla hefur skapast innan atvinnugreinarinnar sem blóðugt er að missa og engum dylst að áhrif Kórónuveirunnar mun gæta lengur en nokkurn hafði grunað í upphafi faraldurs.

Breyttar áherslur að loknum faraldri – hvers má vænta ?

Í nýlegri skýrslu OECD (Efnahags- og framfarastofnun) sem fjallar um erfiða stöðu ferðaþjónustunnar á heimsvísu eru m.a tekin saman helstu áhrif sem koma til með að gæta þegar faraldri lýkur.

  • Stafræn þróun mun skipa mikilvægan sess í endurreisn ferðaþjónustunnar. Aukin áhersla verður á sjálfvirkni, snertilausar lausnir, sýndarupplifun og upplýsingagjöf í rauntíma.
  • Sjálfbærni mun hljóta enn meira vægi í hugum ferðamanna þar sem vitundarvakningu hefur orðið varðandi loftlagsbreytingar og skaðlegra umhverfisáhrifa ferðaþjónustunnar. Búist er við að víðfem náttúrusvæði og dreifbýli komi til með að laða enn frekar að.
  • Ferðalög innanlands verða eftirsóknarverðari kostur en áður. Innlendir ferðamenn eru oft á tíðum ekki viljugir til að greiða sama verð (e.price sensitive) og þeir erlendu sem hafa ber í huga við markaðssetningu. 
  • Traust til að ferðast verður minna vegna óvissunnar sem kemur til með að ríkja áfram vegna veirunnar. Það kemur til með að endurspeglast í samdrætti og í breyttu neyslumynstri ferðamanna.
  • Öryggi og hreinlæti verða mikilvægari þættir þegar áfangastaður er valinn. Líklegt er að ferðamenn forðist fjölmenna staði og að val þeirra beinist frekar að afþreyingu og gistingu þar sem samgangur við aðra er takmarkaður.
  • Skipulagsbreytingar eru óhjákvæmilegur og því miður munu ekki öll ferðaþjónustufyrirtæki lifa faraldinn af. Búast má við samruna fyrirtækja og minna framboði um tíma.
  • Þekking og reynsla mun glatast með breyttum starfsvettvangi reyndra og sérhæfðra aðila.
  • Minni fjárfesting kallar á virka stefnu til að endurheimta fjárfestingar í ferðaþjónustunni með það að markmiði að stuðla að sjálfbærum bata atvinnugreinarinnar.
  • Skilmálar verða sveigjanlegri og gefa rýmri möguleika á að aðlagast breyttum aðstæðum.

Miðað við þær breyttu áherslur sem vænta má í heimi ferðaþjónustunnar er það greinilegt að miklar áskoranir bíða ferðaþjónustufyrirtækja á komandi árum. En það er einmitt á tímum áskoranna sem vel rekin fyrirtæki vaxa og þróast í áður óþekktar áttir.

Uppskrift að góðri íslenskri viðspyrnu

Framundan er uppbygging ferðaþjónustu í breyttu landslagi sem Kórónuveiran hefur skapað okkur. Mikilvægur þáttur uppbyggingar felst í því að ferðaþjónustuaðilar tileinki sér og leggi áherslu á stafrænar lausnir, sem allt í senn draga úr kostnaði, auka skilvirkni og hraða og um leið bæta þjónustu og upplifun viðskiptavina. Stafrænt umhverfi hefur breyst mikið síðustu ár og góðar hugbúnaðarlausnir hafa aldrei verið jafn aðgengilegar, notendavænar og hagkvæmar og nú. 

Uppbygging innviða, varðveisla náttúru og öryggismál eru stórir og mikilvægir liðir í endurreisn ferðaþjónustu landsins. Ísland hefur þannig alla burði til þess að spyrna fast við botninum þegar aðstæður í heiminum leyfa óhefluð ferðalög á nýjan leik. Okkar víðfema land, stórbrotna náttúra og okkar ótrúlegi mannauður er í raun sá efniviður sem þarf fyrir góða viðspyrnu. Ekki má þó líta framhjá þeim tækifærum sem Ísland hefur til að skapa sér enn frekari sérstöðu með því að vera fremst í alþjóðlegum flokki þegar kemur að tæknilegum útfærslum sem byggðar eru á íslensku hugviti og nýsköpun.

Það hefur sýnt sig og sannað að þau fyrirtæki sem leggja meiri áherslu á stafræna innviði eru yfirleitt betur í stakk búin til þess að taka á móti holskeflu viðskipta þegar svo ber við.

Fyrirtæki í ferðaþjónustu þurfa að nýta tímann vel á meðan lítið er að gera til þess að greina stafræna getu sína og uppfæra þar sem þörf er á.

Framtíðin er björt og framtíðin er stafræn.